Er gagnrýnin hugsun afstaða?

Í morgun barst mér til eyrna lokakafli í viðtali við Njörð P. Njarðvík. Án efa hefur þetta verið um margt merkilegt viðtal, enda skýr fýr í flesta staði.

Í þessum lokakafla reifaði Njörður viss atriði sem hann taldi mikilvægt að leggja áherslu á, meðal þess var að efla kennslu barna á fyrstu stigum, með áherslu á siðfræði, heimspeki og gagnrýna hugsun. Þetta hlýtur að teljast eðlileg krafa í heimi þar sem flækjustig tilverunnar vex línulega með tíma.

Ég velti því þó fyrir mér, hvort mögulegt sé að forsníða gagnrýna hugsun í neysluhæfar umbúðir, þ.e. getur gagnrýnin hugsun orðið einstakling eðlislæg?

Í mínum huga er gagnrýnin hugsun merkingarlaust fyrirbæri, kannski mætti skrifa það á tilfinnalegan skort á langtíma setu innan hugvísindadeilda, en ég get þó vísað í almenna orðaræðu á Îslandi, sem hefur haldið þessu hugtaki á lofti í kjölfar hrunsins. Algengt er að sjá vísanir á "skort á gagnrýnni hugsun" í tilfellum þar sem aðrar skýringar eiga betur við, s.s. einstaklingur A skorti þekkingu á málefni B og tók ákvörðun sem leiddi til C, í einfaldri mynd: "Einstaklingur A er fáviti", hér fær síðan fáviti vigt byggt á öðrum þáttum, svo sem meðvitundar um skort á þekkingu o.sv.fr.

Ég hugsa þó bara fyrir einn, kannski hefur gagnrýnin hugsun kristaltæra merkingu hjá öðrum, það væri áhugavert ef þeirra afstaða kæmi skýrar fram í umræðunni.

Ég get þó dregið þetta saman á eftirfarandi máta, gefur okkur að gagnrýnin hugsun sé nauðsynlegur hluti af hæfileika einstaklings til ákvörðunartöku, þ.e. hægt er að taka "bestu" ákvörðun, þá og því aðeins að gagnrýnin hugsun sé til staðar. Ákvörðun í eðli sínu endurspeglar forsendur einstaklingsins ásamt væntingum um útkomu. Þá mætti skorða gagnrýna hugsun sem hæfileika einstaklings til að greina umhverfið sem ákvörðunin lifir í, þ.e. ég tek þessa ákvörðun núna, eftir að tími t er liðin verður líklega staðan svona, að því gefnu að forsendur a, b, c, í umhverfinu standist.

En þetta umhverfi er órætt, þ.e. engin ákvörðun er eyland innan tiltekins ramma. Ef við skoðun fjármálaumhverfið sem dæmi, er auðvelt að sjá að gæði ákvörðunar um sparnað, ákvarðast (undir vissum kringumstæðum) af þáttum úr öðrum "óskyldum" umhverfum. Besta (eða "minnst versta") ákvörðunin yrði því tekin á forsendum um samverkan ólíkra þátta (og þekkingu á því), en í raunveruleikanum er fjöldi þeirra er ógreinanlegur (þannig að besta ákvörðunin yrði aðeins nálgun), vissulega er hægt að vikta niður orsakasamhengi (t.d. áhrif byggðarstefnu og framkvæmdar hennar á útgreiðslu lífeyris í framtíðinni er kannski ekki mikilvægur þáttur).

Ef maður tekur þennan pól í hæðina, er gagnrýnin hugsun því orðin afleiðing en ekki forsenda, þ.e. hugtakið lifir sem gæðastimpill á almennum hæfileika einstaklings til upplýstrar ákvarðanatöku. Almennt séð, hefur þekking einstaklings jákvæð áhrif á ákvörðunartöku hans, þekking er menntun (formleg eða ekki) og þar væri kannski réttara að byrja. Auka gæði menntunar og gagnrýnin hugsun kemur í kjölfarið.

Höfundur lauk grunnskólaprófi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband